Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu, viðurkennir að hann skipuleggi æfingar liðsins í kringum leiki hjá uppeldisfélagi sínu Liverpool svo hann geti horft á þá í beinni útsendingu. Stuðningsmenn Al-Ettifaq og íþróttafréttamenn eru ekki ánægðir með það.
„Ég og John Achterberg [markmannsþjálfari] erum með fleiri en eitt auga á leikjunum. Við skipuleggjum allar æfingar í kringum leiki Liverpool.
Leikmennirnir eru farnir að fatta þetta, við höfum verið að æfa klukkan níu eða tíu á kvöldin,“ sagði Gerrard í samtali við Redmen TV.
Þessi ummæli hafa fallið í grýttan jarðveg stuðningsmanna og íþróttafréttamanna sem hafa kallað eftir því að Gerrard verði rekinn, þar sem liðinu hefur í ofanálag gengið illa að undanförnu.
Raunar hefur Al-Ettifaq ekki unnið leik í efstu deild Sádi-Arabíu í tvo mánuði. Al-Ettifaq var svo slegið úr keppni í konungsbikar Sádi-Arabíu af liði sem leikur í næst efstu deild.