Framar björtustu vonum

Lára Kristín Pedersen hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari á ferlinum …
Lára Kristín Pedersen hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari á ferlinum en hún skrifaði undir tveggja ára samning í Belgíu. mbl.is/Hákon

Knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen gekk til liðs við Club Brugge í efstu deild Belgíu á dögunum og skrifaði hún undir tveggja ára samning við félagið.

Lára Kristín, sem er þrítug, hefur komið víða við á ferlinum en hún er uppalin hjá Aftureldingu. Hún hefur einnig leikið með Stjörnunni, Þór/KA, KR og Val hér á landi. Hún hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari á ferlinum, þrívegis með Val og tvívegis með Stjörnunni. Þá varð hún tvívegis bikarmeistari með Stjörnunni, 2014 og 2015, og einu sinni með Val, árið 2022. Alls á hún að baki 216 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 18 mörk.

Á atvinnumannsferlinum hefur hún leikið með Napoli á Ítalíu og Fortuna Sittard í Hollandi en hún yfirgaf hollenska liðið eftir að tímabilinu lauk í maí á þessu ári.

„Þessir fyrstu dagar hérna í Belgíu hafa verið mjög góðir,“ sagði Lára Kristín í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er mjög sátt við aðstöðuna og umgjörðina í kringum liðið. Mér hefur verið tekið mjög vel af leikmönnum, starfsfólki og þjálfurum og mér líður virkilega vel. Ég er búin að vera hjá liðinu í mánuð núna og ég myndi segja að þetta hafi gengið framar björtustu vonum,“ sagði Lára Kristín sem á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Ísland.

Rann út á samningi

Lára Kristín kom heim til Íslands í sumar eftir tímann í Hollandi og æfði með sínu fyrrverandi félagi Val á Hlíðarenda.

„Samningurinn minn úti í Hollandi rann út og ég ákvað að koma heim. Það kom alveg til greina að endurnýja samninginn við Fortuna Sittard en að endingu varð ekkert úr því. Það voru ýmsar þreifingar í gangi en svo kom upp leiðindamál í kringum þáverandi umboðsmann minn sem ég ætla ekki að fara neitt sérstaklega út í. Ég skipti um umboðsmann undir lok sumars og eftir það fóru hjólin aftur að snúast.

Í draumaheimi hefði ég verið komin með nýtt lið um leið og samningurinn minn rann út í Hollandi en það gekk ekki eftir. Það er aldrei gott, þegar þú ferð í nýtt lið, að missa af undirbúningstímabilinu og semja við nýtt félag þegar tímabilið er byrjað. Úr því sem komið var er ég ofboðslega sátt við það að skiptin til Club Brugge hafi gengið í gegn.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert