Real Madríd eins og Donald Trump

Donald Trump, Vinícius Júnior og Mats Hummels.
Donald Trump, Vinícius Júnior og Mats Hummels. Ljósmynd/Samsett

Þýski knattspyrnumaðurinn Mats Hummels var ekki hrifinn af uppátæki Real Madríd þegar Gullboltinn var afhentur á verðlaunaafhendingu í París á mánudag.

Leikmenn og starfsfólk Real Madríd ákvað að mæta ekki á athöfnina í mótmælaskyni. Þótti þeim illa vegið að hinum brasilíska Vinícius Júnior, sem félaginu hafði verið tilkynnt að myndi ekki hreppa Gullboltann.

Rodri hlaut hann í fyrsta sinn og Vinícius hafnaði í öðru sæti í kjörinu. Í yfirlýsingu frá spænska félaginu sagði það meðal annars að það að Brasilíumaðurinn hafi ekki unnið bæri vott um virðingarleysi.

„Að nota orð eins og „virðingarleysi“ þegar maður vinnur ekki kosningar er svolítið eins og [Donald] Trump og því miður er það vanvirðing í garð annarra leikmanna. Það er það slæma við þetta.

Það er ekki nokkur spurning að einhver leikmaður Real hefði verðskuldað að vinna en það eru aðrir leikmenn sem eru alveg jafn góðir. Að heiðra þá ekki er mjög slæmt,“ sagði Hummels í hlaðvarpsþætti sínum Alleine ist schwer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert