Knattspyrnusamband Trínidad og Tóbagó hefur ráðið Dwight Yorke sem nýjan þjálfara karlalandsliðsins.
Yorke er einn allra þekktasti leikmaður Trínidad og Tóbagó frá upphafi. Hann lék á sínum tíma 96 leiki fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 48 mörk.
Þar á undan gerði hann 73 mörk í 231 deildarleik með Aston Villa. Yorke skoraði 19 mörk í 72 landsleikjum með Trínidad og Tóbagó.
Í yfirlýsingu knattspyrnusambandsins kemur fram að Yorke sé ætlað að koma landsliði þjóðar sinnar á HM 2026, en eina lokamótið sem Trínidad og Tóbagó hefur keppt á var í Þýskalandi árið 2006.