Hollenska liðið PSV vann sinn fyrsta sigur á leiktíðinni í Meistaradeild Evrópu í fótbolta er liðið skellti spænska liðinu Girona, 4:0, á heimavelli sínum í 4. umferð deildarkeppninnar í kvöld.
Ryan Flamingo gerði fyrsta markið á 16. mínútu og Malik Tillman bætti við marki á 33. mínútu og sá til þess að staðan í hálfleik var 2:0.
Arnau Martínez hjá Girona fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 55. mínútu. PSV nýtti sér liðsmuninn því Johan Bakayoko gerði þriðja markið á 83. mínútu og fjórða markið var sjálfsmark á 88. mínútu.
PSV er í 19. sæti með fimm stig. Girona er í 26. sæti af 36 liðum með þrjú stig.
Slovan Bratislava frá Slóvakíu og Dinamo Zagreb frá Króatíu mættust á heimavelli fyrrnefnda liðsins og vann Dinamo sterkan útisigur, 4:1.
Sandro Kulenovic skoraði tvö mörk fyrir Dinamo og þeir Dario Spikic og Petar Sucic skoruðu einnig. David Strelec gerði mark Slovan Bratislava.
Dinamo er í 10. sæti með sjö stig og Slovan án stiga á botninum.