Hefði átt að fresta öllum leikjum

Carlo Ancelotti á fréttamannafundi í gær.
Carlo Ancelotti á fréttamannafundi í gær. AFP/Óscar del Pozo

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, furðar sig á því að leikir hafi farið fram í spænska boltanum um liðna helgi vegna flóðanna í Valencia.

Real Madríd kom á fót söfnun ásamt Rauða krossinum á Spáni og lagði félagið til eina milljón evra, 150 milljónir íslenskra króna, til hjálpar fórnarlömbum.

„Það eru margar leiðir til að hjálpa. Mér finnst þetta vera öðruvísi. Mér finnst að það hefði átt að fresta öllum fótbolta um helgina. Knattspyrnuhreyfingin getur og á auðvitað að hjálpa jafnvel þó að leikjum hafi ekki verið frestað,“ sagði Ancelotti á fréttamannafundi í gær.

Ættir ekki að fagna þegar fólki líður illa

Real Madríd á fyrir höndum heimaleik gegn AC Milan í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld og hefði Ítalinn einnig viljað að þeim leik væri frestað.

„Ég tel fótbolta vera fögnuð, þú getur fagnað þegar þér líður vel og þegar fjölskyldunni líður vel. Þá líður öllum vel og ég held partí. Þegar fólki líður illa ættirðu ekki að fagna. Því þarf á þeirri stundu að stöðva fótboltann að mínu mati.

Fótbolti er það mikilvægasta af ómikilvægu hlutunum í lífinu. En eins og ég hef áður sagt getum við ekki tekið ákvarðanir, við erum bara starfsmenn í þessum heimi, erum ekki þeir sem stjórna,“ sagði Ancelotti einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert