Club Brugge frá Belgíu hafði í kvöld betur gegn Aston Villa frá Englandi, 1:0, í 4. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á heimavelli sínum.
Villa var með fullt hús stiga fyrir leikinn í kvöld en er nú með níu stig og í fimmta sæti, þremur stigum á eftir toppliði Liverpool. Club Brugge er í 20. sæti með sex stig.
Hans Vanaken, fyrirliði Club Brugge, skoraði sigurmarkið úr víti á 52. mínútu.
Úkraínska liðið Shakhtar Donetsk vann sinn fyrsta sigur er liðið lagði Young Boys frá Sviss, 2:1. Leikurinn var heimaleikur Shakhtar en leikið var í Gelsenkirchen í Þýskalandi á heimavelli Schalke.
Kastriot Imeri kom Young Boys yfir á 27. mínútu en þeir Oleksandr Zubkov og Georgiy Sudakov svöruðu fyrir Shakhtar á 31. og 41. mínútu og þar við sat.
Shakhtar er í 26. sæti með fjögur stig. Young Boys er eitt sex liða sem er án stiga.