Íslenski Bandaríkjamaðurinn spilaði í Meistaradeildinni

Cole Campbell í baráttu við Maximilian Arnold í leik Borussia …
Cole Campbell í baráttu við Maximilian Arnold í leik Borussia Dortmund og Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í síðasta mánuði. AFP/Ronny Hartmann

Knattspyrnumaðurinn William Cole Campbell kom inn á sem varamaður hjá þýska stórliðinu Borussia Dortmund í 1:0-sigri á Sturm Graz í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.

Cole eins og hann er ávallt kallaður er byrjaður að spila með aðalliði Dortmund en alls eru leikirnir orðnir fjórir á yfirstandandi tímabili: tveir í þýsku 1. deildinni, einn í bikarnum og einn í Meistaradeild.

Hann leikur fyrir yngri landslið Bandaríkjanna en hafði áður leikið fyrir U17-ára lið Íslands. Á Íslandi lék Cole, sem er 18 ára gamall, tvo leiki fyrir FH og einn fyrir Breiðablik í efstu deild.

Cole hyggst spila fyrir bandaríska landsliðið í framtíðinni, en faðir hans er frá Bandaríkjunum og móðir hans, fyrrverandi landsliðskonan Rakel Björk Ögmundsdóttir, er íslensk en fædd og uppalin í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka