Síðbúið bann eftir fall á lyfjaprófi

Óscar Zambrano (t.v.) í leik með U20-ára landsliði Ekvador.
Óscar Zambrano (t.v.) í leik með U20-ára landsliði Ekvador. AFP/Juan Barreto

Knattspyrnumaðurinn Óscar Zambrano, miðjumaður Hull City í ensku B-deildinni, hefur verið úrskurðaður í ótímabundið keppnisbann eftir að hann féll á lyfjaprófi fyrr á árinu.

Zambrano, sem er tvítugur, gekk til liðs við Hull í sumar að láni frá LDU Quito í heimalandi sínu Ekvador.

Hann féll á lyfjaprófi eftir leik með LDU Quito í Suður-Ameríkubikarnum í mars síðastliðnum en var þrátt fyrir það ekki úrskurðaður í leikbann.

Nú hefur Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, CONMEBOL, hins vegar úrskurðað hann í bann frá öllum afskiptum af knattspyrnu en ekki liggur fyrir hversu langt bannið er.

Í yfirlýsingu frá Hull segir að Zambrano og lögfræðingar hans muni áfrýja banninu til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert