Enska liðið Chelsea fór ansi illa með Noah frá Armeníu er liðin mættust í Sambandsdeild karla í fótbolta á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld. Urðu lokatölur 8:0.
Guðmundur Þórarinsson er að jafna sig á meiðslum og var allan tímann á varamannabekk Noah.
Staðan var orðin 4:0 eftir aðeins 21 mínútu og voru hálfleikstölur 6:0. Chelsea slakaði á í seinni hálfleik og bætti „aðeins“ við tveimur mörkum eftir hlé.
Christopher Nkunku og João Félix skoruðu tvö mörk hvor og þeir Axel Disasi, Tosin Adarabioyo, Mykhaylo Mudryk og Marc Guiu komust einnig á blað.
Chelsea er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Noah er í 28. sæti með þrjú stig. Næsti leikur Noah er á heimavelli gegn Víkingi úr Reykjavík 28. nóvember.
Sverrir Ingi Ingason var allan tímann í hjarta varnarinnar hjá Panathinaikos frá Grikklandi er liðið fór í fýluferð til Svíþjóðar og tapaði fyrir Djurgården, 2:1. Hörður Björgvin Magnússon lék ekki með Panathinaikos vegna meiðsla. Panathinaikos er í 31. sæti með eitt stig.
Albert Guðmundsson spilaði ekki með Fiorentina sem tapaði á útivelli fyrir APOEL frá Kýpur, 2:1. Þá var Rúnar Alex Rúnarsson allan tímann á bekknum hjá FC Kaupmannahöfn sem gerði jafntefli við Basaksehir frá Tyrklandi á heimavelli, 2:2.
Önnur úrslit:
Real Betis 2:1 Celje
LASK 0:0 Cercle Brugge
Vitória 2:1 Mladá Boleslav
Hearts 0:2 Heidenheim
Jagiellonia 3:0 Molde
Larne 1:2 St. Gallen