Loksins vann United – Orri skoraði

Orri Steinn Óskarsson í baráttunni við Svetozar Markovic í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson í baráttunni við Svetozar Markovic í kvöld. AFP/Michal Cizek

Manchester United vann sinn fyrsta sigur í Evrópudeild karla í fótbolta á leiktíðinni er enska liðið lagði PAOK frá Grikklandi á heimavelli í 4. umferðinni í kvöld, 2:0.

Amad Diallo var hetja United því hann skoraði bæði mörk liðsins, það fyrra á 50. mínútu og það seinna á 77. mínútu.

United gerði jafntefli í fyrstu þremur umferðunum og er því í 15. sæti með sex stig.

Amad Diallo fagnar marki í kvöld.
Amad Diallo fagnar marki í kvöld. AFP/Oli Scarff

Orri Steinn Óskarsson var á skotskónum fyrir spænska liðið Real Sociedad er það mátti þola tap gegn tékkneska liðinu Viktoria Plzen á útivelli, 2:1.

Landsliðsframherjinn jafnaði í 1:1 á 35. mínútu og lék allan leikinn. Það dugði skammt því Daniel Vasulin gerði sigurmarkið á 89. mínútu, mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Orri og félagar eru í 25. sæti með fjögur stig. Liðin í 9.-24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.

Kristian Nökkvi Hlynsson var allan tímann á bekknum hjá Ajax er hollenska liðið vann 5:0-heimasigur á Maccabi Tel-Aviv frá Ísrael í Amsterdam. Ajax er í öðru sæti með tíu stig.

Ítalska liðið Lazio er eitt á toppnum með fullt hús stiga eftir dramatískan 2:1-heimasigur á Porto í Róm. Spánverjinn Pedro skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Önnur úrslit:
AZ Alkmaar 3:1 Fenerbahce
Dynamo Kíev 0:4 Ferencváros
Hoffenheim 2:2 Lyon
RFS 1:1 Anderlecht

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert