Lionel Messi og félagar í Inter Miami duttu úr leik í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu í nótt eftir 3:2 tap í oddaleik á heimavelli gegn Atlanta United.
Dagur Dan Þórhallsson og félagar í Orlando City fara áfram eftir sigur gegn Charlotte í vítaspyrnukeppni.
Matias Rojas kom Miami yfir á 17. mínútu en Jamal Thiaré jafnaði metin tveimur mínútum síðar og kom þeim yfir á 21. mínútu. Staðan var 2:1 fyrir Atlanta í hálfleik en Lionel Messi jafnaði metin fyrir Miami á 65. mínútu. Bartos Slisz kom Atlanta aftur yfir og Atlanta fer í átta liða úrslit.
Atlanta mætir Orlando City í næstu umferð eftir sigur í vítaspyrnukeppni í oddaleik gegn Charlotte. Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Orlando, fór af velli á 79. mínútu en þá var staðan 1:0 fyrir Charlotte. Orlando jafnaði metin á lokamínútu uppbótartímans og hafði betur í vítaspyrnukeppninni, 4:1.
Keppnin um bandaríska meistaratitilinn heldur áfram eftir landsleikjahléið en Orlando og Atlanta mætast 24. nóvember.