England vann sterkan sigur á Grikklandi, 3:0, í 2. riðli í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu karla í Marousi á Grikklandi í kvöld.
Með sigrinum er England komið í efsta sæti riðilsins með 12 stig, jafnmörg og Grikkland en betri innbyrðisviðureignir.
Átta leikmenn drógu sig úr enska hópnum og þar á meðal lykilmenn liðsins. Þrátt fyrir það spilaði enska liðið sinn besta fótbolta í langan tíma.
Ollie Watkins og Curtis Jones skoruðu sitthvort markið fyrir England en annað mark liðsins var sjálfsmark.
Noregur vann þá sannfærandi sigur á Slóveníu í Slóveníu, 4:1.
Leikurinn var liður í 3. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar en Norðmenn eru í öðru sæti með tíu stig, jafnmörg og Austurríki sem er með betri innbyrðisviðureignir. Slóvenía er í þriðja sæti með sjö stig en Kasakstan í fjórða með eitt stig.
Antonio Nusa skoraði tvö mörk fyrir Noreg en Erling Haaland og Jens Petter Hauge skoruðu sitthvort. Mark Slóveníu skoraði Benjamin Sesko úr vítaspyrnu.