Iniesta kaupir danskt félag

Andrés Iniesta lék lengst af með Barcelona.
Andrés Iniesta lék lengst af með Barcelona. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Andrés Iniesta hefur keypt meirihluta í danska knattspyrnufélaginu FC Helsingör.

Karlalið Helsingör leikur í C-deildinni í Danmörku og festi Iniesta kaup á félaginu í gegnum fyrirtæki sitt Never Say Never, NSN.

Hann er þar með orðinn eigandi knattspyrnufélags stuttu eftir að Spánverjinn lagði skóna sjálfur á hilluna.

Þjálfari Helsingör er Spánverjinn Pep Alomar og leika nokkrir spænskir leikmenn með liðinu.

„Markmiðið er að sjá liðið bæta sig á hverju ári, að þróa leikmenn í akademíunni, bæta aðstöðuna og láta fólk vera stolt af liðinu þeirra,“ sagði Iniesta í samtali við dönsku sjónvarpsstöðuna TV2.

Áhugavert félag og mikið af góðu fólki

„Við erum komnir til Helsingör því það er mjög áhugavert félag með frábærar aðstæður, mikið af góðu fólki í kringum sig og borgin býr yfir þeim möguleika að verða mikilvægur hluti af danskri knattspyrnu,“ bætti hann við í samtalið við staðarblaðið Helsingör Dagblad.

Helsingör er í sjöunda sæti af tólf liðum í C-deildinni. Liðið lék síðast í úrvalsdeildinni fyrir sjö árum síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert