Stórlið Argentínu og Brasilíu töpuðu bæði stigum í undankeppni HM 2026 í Suður-Ameríku í gærkvöldi. Argentína tapaði 2:1 fyrir Paragvæ og Brasilía gerði jafntefli við Venesúela, 1:1.
Heimsmeistarar Argentínu er enn á toppi riðilsins með 22 stig og Brasilía í þriðja sæti með 17. Paragvæ er í sjötta sæti með 16 stig og Venesúela sæti neðar með 12.
Í Paragvæ byrjuðu Argentínumenn betur og komust yfir á 11. mínútu með marki Lautaro Martínez.
Paragvæ sneri hins vegar taflinu við með mörkum frá Antonio Sanabria átta mínútum síðar og Omar Alderete í upphafi síðari hálfleiks.
Í Venesúela kom Raphinha Brasilíumönnum yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu rétt fyrir leikhlé.
Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Telasco Segovia hins vegar metin fyrir Venesúela, aðeins 40 sekúndum eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik.
Vinícius Júnior fékk tækifæri til þess að koma Brasilíu yfir á nýjan leik en Rafael Romo í marki Venesúela varði vítaspyrnu frá honum eftir rúmlega klukkutíma leik.