Pochettino vann fyrsta keppnisleikinn

Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino. AFP/Ronald Cortes

Lærisveinar Mauricio Pochettino í bandaríska karlalandsliðinu í knattspyrnu gerðu góða ferð til Kingston í Jamaíku og lögðu þar heimamenn 1:0 í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku í nótt.

Var þetta þriðji leikur Bandaríkjanna undir stjórn Pochettino og fyrsti keppnisleikurinn. Liðin mætast aftur í St. Louis í Bandaríkjunum á þriðjudag.

Ricardo Pepi, sóknarmaður PSV Eindhoven í Hollandi, skoraði sigurmarkið eftir aðeins fimm mínútna leik í nótt. Fyrirliðinn Christian Pulisic, leikmaður AC Milan, lagði markið upp.

Lærisveinar Steves McClarens í Jamaíku fengu kjörið tækifæri til þess að jafna metin á 14. Mínútu þegar heimamenn fengu vítaspyrnu. Demarai Gray steig á vítapunktinn en Matt Turner, markvörður Crystal Palace, varði vel.

Undir lok leiks fékk Mason Holgate í liði Jamaíku rautt spjald eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert