Til handalögmála kom á meðal stuðningsmanna á meðan leik Frakklands og Ísrael stóð í A-deild Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu á Stade de France í París í gærkvöldi.
Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu vegna átaka sem brutust út á milli múslima búsettum í Amsterdam og gyðinga, stuðningsmanna Maccabi tel Aviv, fyrir og eftir leik liðsins gegn Ajax í Evrópudeildinni í síðustu viku.
Þegar þjóðsöngur Ísrael var spilaður fyrir leik í gærkvöldi baulaði hluti áhorfenda. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af leiknum kom til handalögmála milli stuðningsmanna þjóðanna tveggja í áhorfendastúkunni.
Öryggisverðir voru fljótir að skakka leikinn auk þess sem óeirðalögregla var í viðbragðsstöðu í grennd við stúkuna.
Aðeins 20.000 áhorfendur voru á leiknum en Stade de France tekur 80.000 manns í sæti. Aldrei hafa færri áhorfendur mætt á leik karlaliðs Frakklands á leikvanginum.
Mörg þúsund lögregluþjónar voru reiðubúnir ef til átaka kæmi í grennd við leikvanginn og annars staðar í Parísarborg.
Kom ekki til átaka utan vallar en óeirðalögregla vísaði til að mynda nokkur hundruð mótmælendum, sem eru hliðhollir Palestínu og marseruðu í átt að leikvanginum, af vettvangi.