Sigruðu þrátt fyrir óheppilegt sjálfsmark Róberts

Róbert Orri Þorkelsson á æfingu með Kongsvinger.
Róbert Orri Þorkelsson á æfingu með Kongsvinger. Ljósmynd/Kongsvinger

Róbert Orri Þorkelsson, leikmaður Kongsvinger, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leik liðsins gegn Lyn í 1. umferð umspilsins um sæti í norsku úrvalsdeildinni. Leikar enduðu með 2:1-sigri Kongsvinger eftir framlengdan leik.

Kongsvinger er komið áfram í aðra umferð umspilsins og mætir þar Egersund á útivelli.

Lyn náði forystunni á 38. mínútu eftir sjálfsmark Róberts Orra. Allt stefndi í sigur hjá Lyn þar til á 85. mínútu þegar Daniel Lysgard jafnaði metin. Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Kongsvinger tók forystuna á 100. mínútu eftir mark frá Oscar Kapskarmo. Á 112. mínútu framlengingarinnar fékk Harald Holter, leikmaður Kongsvinger, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þrátt fyrir að vera manni færri hélt Kongsvinger út og vann að lokum 2:1-sigur.

Hægt er að sjá óheppilegt sjálfsmark Róberts hér fyrir neðan.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert