Ádám Szalai, aðstoðarþjálfari karlaliðs Ungverjalands í knattspyrnu, er á batavegi og kominn heim til fjölskyldu sinnar eftir að hafa hnigið niður á hlíðarlínunni í byrjun leiks gegn Hollandi í A-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.
Szalai hneig niður og fékk flog þegar um sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Gert var hlé á honum í tæpan stundarfjórðung á meðan læknar veittu honum aðhlynningu.
„Við erum mjög ánægð með að Ádám líði betur. Hann er heima í faðmi fjölskyldunnar og litlu dóttur sinnar.
Það sem gerðist reyndist mér afar þungbært. Ég sá á andlitum viðstaddra að eitthvað alvarlegt hafði átt sér stað,“ sagði Marco Rossi, þjálfari Ungverjalands, á fréttamannafundi í dag.
Ungverjar vilja ekki gefa upp hvort Szalai, sem er 37 ára gamall, verði mættur aftur á hliðarlínuna fyrir leik liðsins gegn Þýskalandi í Búdapest annað kvöld.