Írska karlalandsliðið í fótbolta, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, mátti þola stórt tap fyrir Englandi, 5:0, í B-deild Þjóðadeildarinnar í gærkvöldi.
Írska liðið átti lítið í sterkt lið Englands og endar með sex stig eftir jafnmarga leiki. Þá mun Írland leika í umspili um áframhaldandi sæti í B-deildinni í mars.
Eamonn Sweeney, fréttaritari hjá Irish Independent, var ómyrkur í máli eftir tap Írlands. Tók hann í þá strengi að írska liðið myndi aldrei ná að keppa við það enska aftur.
„Við munum aldrei vinna þá ensku aftur, gleymið stórsigrum gegn stórum liðum. Baráttan okkar er að vera á undan Albaníu, Georgíu og Norður-Makedóníu á meðan við reynum að stökkva fram úr Slóveníu, Skotlandi og Noregi.
Seinni hálfleikur leiksins er nákvæmlega það sem við má búast þegar lið úr ensku B-deildinni missir leikmann af velli gegn úrvalsdeildarliði.
Það hefði kannski verið öðruvísi ef Evan Ferguson hefði fengið vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar Marc Guehi braut á honum, Írland hefði þá getað tapað 5:1.
Írska landsliðið var aldrei að fara sækja úrslit. Ekki með þrjá fastamenn í ensku úrvalsdeildinni í liðinu, sem allir leika með liðum í neðri hlutanum.
Enska liðið er í öðru sólkerfi,“ sagði blaðamaðurinn meðal annars.