Arnór Sigurðsson glímir enn við meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni í knattspyrnu mestan hluta yfirstandandi keppnistímabils.
Arnór hefur aðeins náð að taka þátt í fimm af fimmtán leikjum Blackburn í deildinni það sem af er þessu tímabili og hann hefur verið fjarri góðu gamni í síðustu fjórum leikjum íslenska landsliðsins í Þjóðadeildinni.
John Eustace, knattspyrnustjóri Blackburn, skýrði frá því á fréttamannafundi í dag að Arnór hefði enn á ný orðið fyrir áfalli á æfingu á mánudaginn þegar hann hefði þurft að hætta vegna meiðsla í kálfa.
„Vonandi verður hann ekki of lengi að ná sér. Þetta hefur verið gríðarlega svekkjandi kafli fyrir hann. Arnór er leikmaður í fremstu röð og það er afar leiðinlegt að geta ekki teflt honum fram þessa dagana," sagði Eustace á fundinum.
Blackburn er í 9. sæti ensku B-deildarinnar og fær Portsmouth í heimsókn á laugardaginn.