Argentínumaðurinn Javier Mascherano verður nýr knattspyrnustjóri bandaríska knattspyrnuliðsins Inter Miami.
Ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá á X-aðgangi sínum. Mun Mascherano taka við Inter Miami í upphafi næsta árs og skrifa undir langtímasamning.
Mascherano, sem er fertugur, mun þar með endurnýja kynnin við nokkra af fyrrverandi liðsfélögum sínum hjá Barcelona þar sem leikmennirnir Lionel Messi, Luis Suárez, Sergio Busquets og Jordi Alba eru allir samningsbundnir Inter Miami.
Hann hefur þjálfað U20-ára lið Argentínu frá árinu 2021 og stýrði U23-ára liðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar. Lætur Mascherano af störfum hjá Argentínu til þess að taka við nýja starfinu.