Atlético skoraði sex - erfiðara hjá Milan

Julian Álvarez fagnar marki fyrir Atlético í Prag í kvöld.
Julian Álvarez fagnar marki fyrir Atlético í Prag í kvöld. AFP/Michael Cizek

Atlético Madrid og AC Milan styrktu stöðu sína í Meistaradeild karla í fótbolta í kvöld þegar þau sóttu bæði þrjú stig í ferðalögum til austurhluta Evrópu.

Atlético Madrid vann mun auðveldari sigur, 6:0 gegn Sparta Prag í Tékklandi, þar sem Julian Álvarez og Angel Correa skoruðu tvö mörk hvor og þeir Marcos Llorente og Antoine Griezmann sitt markið hvor.

AC Milan þurfti að hafa meira fyrir því að vinna Slovan Bratislava í Slóvakíu, 3:2. Christian Pulisic, Rafael Leao og Tammy Abraham skoruðu fyrir ítalska liðið en Tigran Barseghyan og Nino Marcello svöruðu fyrir Slovan sem missti mann af velli með rautt spjald undir lokin.

Atlético og AC Milan eru hnífjöfn í 9. og 10. sæti af 36 liðum í deildinni með 9 stig úr fimm leikjum en eiga eftir að missa einhver lið upp fyrir sig í kvöld og á morgun. Átta efstu liðin komast beint í 16-liða úrslit og næstu sextán lið fara í umspil.

Sjö leikir í keppninni hefjast klukkan 20.00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert