Daníel Leó borinn af velli

Daníel Leó Grétarsson í landsleik.
Daníel Leó Grétarsson í landsleik. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Daníel Leó Grétarsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, var borinn af velli vegna meiðsla þegar Sönderjyske heimsótti Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Leiknum lauk með sterkum útisigri Sönderjyske, 2:0, sem kom liðinu sex stigum á undan Lyngby í fallbaráttunni í deildinni.

Undir lok leiksins meiddist Daníel Leó, að því virtist, frekar illa á öxl og varð að bera hann af velli.

Samherjar og læknar standa hér yfir Daníel sem liggur á …
Samherjar og læknar standa hér yfir Daníel sem liggur á börunum. Ritzau Scanpix/Ida Marie Odgaard

Eftir leikinn staðfesti þjálfari hans, Thomas Nörgaard, að um axlarmeiðsli væri að ræða og að liðið hafi tekið ákveðna áhættu með því að láta Daníel spila.

„Þetta lítur út fyrir að vera sömu meiðsli og hann varð fyrir í leiknum gegn Vejle. Við vissum að það væri útreiknuð áhætta að láta hann spila í dag,“ sagði Nörgaard.

„Hann gaf allt sem hann gat í þennan leik en við vissum að hann gæti skaðað öxl sína aftur í dag. Ég er ekki með stöðuna á meiðslunum á hreinu núna en það var ljóst að hann gat ekki spilað meira í dag,“ sagði Nörgaard að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert