Grátlegt fyrir Jón Dag og félaga

Jón Dagur Þorsteinsson
Jón Dagur Þorsteinsson Ljósmynd/Alex Nicodim

Hertha Berlín er úr leik í þýska bikarnum í fótbolta eftir tap fyrir Köln, 2:1, á útivelli í 16-liða úrslitum í kvöld. Bæði lið leika í B-deildinni.

Gestirnir í Herthu komust yfir á 12. mínútu er Ibrahima Maza skoraði úr víti. Skömmu síðar fékk Deyovaisio Zeefuik hins vegar beint rautt og Hertha varð manni færri.

Köln nýtti sér það og Florian Niederlechner skoraði sjálfsmark á 30. mínútu og jafnaði í 1:1.

Var staðan 1:1 eftir venjulegan leiktíma og því var framlengt. Stefndi allt í vítakeppni þegar Dejan Ljubicic skoraði sigurmark Kölnar úr víti í uppbótartíma framlengingarinnar og skaut heimamönnum áfram.

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á hjá Herthu á 86. mínútu fyrir markaskorarann Maza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert