Sigrar hjá þeim sterkustu

Aitana Bonmatí fagnar ásamt félögum sínum eftir að hafa komið …
Aitana Bonmatí fagnar ásamt félögum sínum eftir að hafa komið Spánverjum yfir gegn Frökkum í Nice. AFP/Franck Fife

Tvö af sterkustu kvennalandsliðum heims, Spánn og Bandaríkin, unnu góða útisigra í vináttulandsleikjum í knattspyrnu í gærkvöld.

Spænsku heimsmeistararnir sóttu Frakka heim til Nice og unnu fjörugan leik, 4:2. Aitana Bonmatí, Claudia Pina, Lucia Garcia og Mariona Caldentey skoruðu fyrir Spánverja og Bonmatí lagði upp mark að auki. 

Fyrra mark Frakka var sjálfsmark og Kadidiatou Diani skoraði það síðara.

Ólympíumeistarar Bandaríkjanna heimsóttu Hollendinga til Haag og sigruðu þar 2:1. Veerie Buurman kom Hollendingum yfir snemma leiks en varð svo fyrir því óláni að jafna leikinn með sjálfsmarki rétt fyrir hlé.

Lynn Williams skoraði síðan sigurmark Bandaríkjanna á 71. mínútu.

Þá vann England sigur á Sviss, 1:0, í Sheffield með marki sem Grace Clinton skoraði strax á 8. mínútu.

Sviss og Frakkland eru mótherjar Íslands í fyrstu leikjum ársins 2025 en liðin eru í riðli með því íslenska í Þjóðadeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert