Sektaðir fyrir snjókast

Mikael Anderson og samherjar í AGF töpuðu snjókastleiknum.
Mikael Anderson og samherjar í AGF töpuðu snjókastleiknum. mbl.is/Árni Sæberg

Danska knattspyrnusambandið hefur sektað félögin AGF og Nordsjælland eftir að stuðningsmenn liðanna fóru í snjókast á meðan viðureign þeirra í dönsku úrvalsdeildinni stóð yfir.

Bold.dk skýrir frá þessu og fram kemur að fjórum sinnum á meðan á leiknum stóð hafi brotist út snjókast á milli stuðningsmannanna, og hvor hópur um sig hafi átt upptökin tvisvar.

Hvort félag um sig er sektað um 5.000 danskar krónur, eða um tæpar 100 þúsund íslenskar krónur, fyrir uppátækið.

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson og samherjar hans í AGF máttu sætta sig við ósigur í leiknum, 1:0, en ekki fer sögum af því hvort félagið hafi haft betur í snjókastinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert