Real og Villa unnu fimm marka leiki

Jude Bellingham fagnar marki sínu.
Jude Bellingham fagnar marki sínu. AFP/Marco Bertorello

Evrópumeistarar Real Madrid höfðu betur gegn Atalanta, 3:2, á útivelli í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Með sigrinum fór Real upp í 18. sæti og minnkaði áhyggjurnar um að missa af sæti í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum til muna. Sæti 9-24 fara í umspil á meðan liðin í 25.-36. sæti falla úr leik.

Kylian Mbappé kom Real yfir á 10. mínútu en Charles De Ketelaere jafnaði úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Real byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Vinícius Jr. og Jude Bellingham komu spænska liðinu í 3:1. Ademola Lookman minnkaði muninn á 65. mínútu og þar við sat.

Barkley hetja Villa

Aston Villa vann Leipzig með sömu markatölu á útivelli. John McGinn kom Villa yfir á 3. mínútu en Lois Openda jafnaði fyrir Leipzig.

Aston Villa sigraði Leipzig í markaleik.
Aston Villa sigraði Leipzig í markaleik. AFP/Ronny Hartmann

John Durán kom Villa aftur yfir á 52. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Christoph Baumgartner fyrir Leipzig. Villa átti hins vegar lokaorðið því Ross Barkley skoraði sigurmarkið á 85. mínútu.

Þýsku liðin unnu

Þýskalandsmeistarar Leverkusen unnu dramatískan heimasigur á Inter Mílanó frá Ítalíu, 1:0. Nordi Mukiele skoraði sigurmark heimamanna á 90. mínútu.

Bæjarar fagna í kvöld.
Bæjarar fagna í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Bayern München, topplið þýsku 1. deildarinnar, vann töluvert þægilegri sigur því liðið sigraði Shakhtar frá Úkraínu, 5:1. Leikurinn var heimaleikur Shakhtar en spilað var í Gelsenkirchen í Þýskalandi vegna stríðsins í Úkraínu.

Michael Olise skoraði tvö mörk fyrir Bayern og þeir Konrad Laimer, Thomas Müller og Jamal Musiala komust einnig á blað. Kevin skoraði mark Shakhtar er hann kom liðinu yfir strax á 5. mínútu.

Önnur úrslit:
Club Brugge 2:1 Sporting
Salzburg 0:3 PSG
Brest 1:0 PSV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert