City tapaði – Börsungar í annað sætið

Ferran Torres fagnar sigurmarki sínu fyrir Barcelona í kvöld.
Ferran Torres fagnar sigurmarki sínu fyrir Barcelona í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Englandsmeistarar Manchester City máttu sætta sig við enn eitt tapið á undanförnum vikum þegar liðið heimsótti Juventus til Tórínó í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld og tapaði 2:0. Barcelona lagði þá Borussia Dortmund, 3:2, í Þýskalandi.

Í leik Juventus og Man. City kom Dusan Vlahovic heimamönnum yfir með skalla snemma í síðari hálfleik eftir góða fyrirgjöf tyrkneska táningsins Kenan Yildiz frá vinstri.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok tvöfaldaði Bandaríkjamaðurinn Weston McKennie forystu Juventus með laglegu skoti á lofti eftir sendingu landa síns Timothy Weah.

Með sigrinum fór Juventus upp í 14. sæti þar sem liðið er með 11 stig. Man. City er í 22. sæti með átta stig og gæti átt hættu á því að komast ekki í umspil um sæti í 16-liða úrslitum, en liðin í 9. - 24. sæti munu spila um átta laus sæti.

Man. City hefur aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum.

Varamaðurinn hetja Barcelona

Í Dortmund kom Raphinha gestunum í Barcelona yfir á 53. mínútu þegar hann slapp einn í gegn eftir stungusendingu Danis Olmos og skoraði með laglegri afgreiðslu.

Nokkrum mínútum síðar fékk Dortmund dæmda vítaspyrnu eftir að Pau Cubarsí hrinti Serhou Guirassy innan vítateigs. Hann steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok kom varamaðurinn Ferran Torres Barcelona yfir að nýju. Hann fylgdi þá eftir skoti annars varamanns, Fermíns López, sem Gregor Kobel hafði varið út. Torres og López höfðu báðir komið inn á skömmu áður.

Ekki leið hins vegar á löngu þar til Guirassy var búinn að jafna metin öðru sinni. Hann skoraði í autt markið á 78. mínútu eftir glæsilegt spil varamannanna Yan Couto Pascal Gross.

Torres var aftur á ferðinni sex mínútum fyrir leikslok þegar Lamine Yamal lagði boltann inn fyrir á hann eftir skyndisókn og Torres skoraði með hnitmiðuðu skoti hægra megin úr vítateignum niður í fjærhornið. Reyndist það sigurmarkið.

Með sigrinum fór Barcelona upp í annað sæti deildarinnar þar sem liðið er með 15 stig. Dortmund er í níunda sæti með 12 stig.

Önnur úrslit:

AC Milan - Rauða stjarnan 2:1
Benfica – Bologna 0:0
Feyenoord – Sparta Prag 4:2
Stuttgart – Young Boys 5:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert