Allir sannfærðir um hæfileika hans

Andri Lucas Guðjohnsen kom til Gent í júlí.
Andri Lucas Guðjohnsen kom til Gent í júlí. Ljósmynd/Alex Nicodim

Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Gent í Belgíu og fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, segir að íslenski landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen eigi eftir að sýna virkilega hvað í honum býr hjá félaginu.

Gent keypti Andra af Lyngby í Danmörku í júlí og hann kom beint inn í liðið þegar tímabilið hófst í Belgíu.

Hann hefur ekki náð að festa sig í byrjunarliðinu, hefur spilað 17 af 20 leikjum í deildinni, en aðeins sjö þeirra í byrjunarliðinu, og skorað þrjú mörk, það þriðja gegn Royale Union í gær. Andri hefur hins vegar verið í byrjunarliði í fimm af sex leikjum liðsins í Sambandsdeildinni en ekki náð að skora.

„Það er svo misjafnt hve fljótir leikmenn eru að komast í gang með nýju liði og Andri þurfti að fara beint í liðið og spila. Það truflar mig ekkert að talað sé um að kaupin á Andra tengist mér vegna þess að ég sé líka Íslendingur, en þetta getur verið pirrandi fyrir hann. Andri á hvorki að hagnast né tapa á því að vera íslenskur," segir Arnar í viðtali við Wigwam, tímarit Gent.

Veit hversu góður hann getur verið

Arnar Þór Viðarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá Gent.
Arnar Þór Viðarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá Gent. Ljósmynd/Gent

„Hann kom hingað vegna þess að allir voru sannfærðir um hæfileika hans, ekki vegna þess að ég vildi endilega fá hann. Ég veit hins vegar hversu góður hann er og sérstaklega hversu góður hann getur verið. Hann hefur ekki sýnt það ennþá, en það kemur.

Stundum gengur þetta ekki strax hjá nýjum leikönnum en ég vil biðla til stuðningsfólks okkar að styðja við bakið á Andra, og öllum öðrum leikmönnum félagsins, þegar illa gengur. Það verður enginn betri af því að baulað sé á þá. Við erum með stóran hóp af ungum leikmönnum og þeir þurfa allir að fá stuðning frá áhorfendum okkar," segir Arnar Þór Viðarsson.

Gent er í 6. sæti belgísku A-deildarinnar eftir 20 umferðir en sex efstu liðin leika áfram um meistaratitilinn þegar hefðbundnum 30 umferðum er lokið. Andri er þriðji markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með þessi þrjú mörk sem hann hefur skorað til þessa.

Gent endaði í 17. sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar, einu stigi og tveimur sætum fyrir ofan Víking, og mætir Real Betis frá Spáni í umspilinu í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert