Hópur stuðningsmanna karlaliðs Leeds United í knattspyrnu söng níðsöngva um eigin leikmann, Manor Solomon, á meðan leik liðsins gegn Stoke City í ensku B-deildinni stóð í gærkvöldi.
Solomon, sem er 25 ára gamall kantmaður frá Ísrael, var í byrjunarliðinu í leiknum í gærkvöldi, sem Leeds vann 2:0. Hann leikur að láni frá Tottenham Hotspur.
„Orðalag eða söngvar sem mismuna eru óásættanlegir og þessir stuðningsmenn gætu hafa brotið lög. Félagið fordæmir þessa hegðun og mun ekki umbera mismunun af hvaða tagi sem er.
Allar knattspyrnudeildir Englands taka harkalega á ólöglegu athæfi á leikvöngum og það felur sömuleiðis í sér mismunun og söngva um harmleiki,“ sagði talsmaður Leeds í samtali við staðarblaðið Yorkshire Evening Post.