Heimir: „Mér leið illa í þessu vinnuumhverfi“

Heimir Hallgrímsson náði mjög góðum árangri á Jamaíka.
Heimir Hallgrímsson náði mjög góðum árangri á Jamaíka. Ljósmynd/@jff_football

Knatt­spyrnuþjálf­ar­inn Heim­ir Hall­gríms­son hef­ur átt afar viðburðarríkt ár en hann var ráðinn þjálf­ari karlaliðs Írlands í júlí á þessu ári, aðeins nokkr­um dög­um eft­ir að hann lét af störf­um sem þjálf­ari karlaliðs Jamaíka.

Heim­ir, sem er 57 ára gam­all, tók við þjálf­un Jamaíka í sept­em­ber árið 2022 og náði mjög góðum ár­angri með liðið en Jamaíka komst í undanúr­slit Gull­bik­ars­ins þar sem liðið tapaði fyr­ir Mexí­kó í undanúr­slit­um keppn­inn­ar í Nevada í Banda­ríkj­un­um.

Þá fór liðið alla leið í undanúr­slit Þjóðadeild­ar Norður-Am­er­íku í ár þar sem Jamaíka tapaði fyr­ir Banda­ríkj­un­um í Arlingt­on, 3:1, eft­ir fram­lengd­an leik en Jamaíka hafnaði í þriðja sæti keppn­inn­ar eft­ir sig­ur gegn Panama í leik um bronsverðlaun­in, 1:0. Með ár­angr­in­um í Þjóðadeild­inni tryggði liðið sér einnig keppn­is­rétt í Suður-Am­er­íku­bik­arn­um þar sem Jamaíka féll úr leik eft­ir riðlakeppn­ina og hætti Heim­ir með liðið stuttu síðar.

Tveir kostir í stöðunni

En af hverju lét Heimir af störfum hjá Jamaíka?

„Við vorum að reyna að breyta ansi mörgu, bæði í vinnuumhverfinu og innan sambandsins og við gagnrýndum hvernig sumir hlutir voru gerðir og unnir. Margir starfsmenn voru óánægðir í starfi.  Ég var mjög skýr við starfsfólkið í kringum liðið um það að ef það væri ekki ánægt í þessu vinnuumhverfi þá hafði það alltaf val um að hætta og finna sér annað umhverfi til þess að vinna í. Ég áttaði mig svo á því að það voru ákveðnir hlutir sem ég gat ekki breytt eða þá að það myndi taka mjög langan tíma að breyta þeim, mun lengri tíma en ég hafði gert mér grein fyrir. Þá stend ég í raun frammi fyrir sama vali og starfsfólkið sem var ekki ánægt í vinnu-umhverfinu.

Þá voru tveir kostir í stöðunni fyrir mig. Það var annaðhvort að halda áfram í starfi sem hafði sína kosti. Ég var með ágætan samning og ég taldi möguleika liðsins á því að komast á HM 2026 mjög góða. Ókosturinn við þennan kost var að mér leið illa í þessu vinnu-umhverfi.  Hinn kosturinn var sá að finna mér annað starf. Ég sá ekki fyrir mér að geta haldið áfram í tvö ár til viðbótar í þessu vinnuumhverfi og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að kalla þetta gott og tjáði forseta sambandsins það fyrir úrslitakeppnina í Suður-Ameríku bikarnum að ég myndi hætta eftir keppnina.  Við héldum því okkar á milli þangað til keppninni lauk fyrir Jamaíka. Þetta var líka góður tímapunktur fyrir nýjan þjálfara að koma inn. Hann hefur góðan tíma til þess að undirbúa liðið fyrir HM og liðið er á góðum stað í dag. Steve McClaren tók við liðinu og vonandi á honum eftir að ganga vel. Við Gummi Hreiðars höfum reynt að aðstoða hann og hans þjálfarateymi í þeirra fyrstu skrefum,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið. 

Ítarlegt viðtal við Heimi Hallgrímsson má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert