Spænski knattspyrnumaðurinn Rodri svaraði á dögunum ummælum portúgalska knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldos um Ballon d'Or-verðlaunin frægu.
Rodri hlaut Gullknöttinn í fyrsta sinn í október en Ronaldo, sem hefur unnið verðlaunin fimm sinnum, gagnrýndi valið á dögunum og sagði að Vinícius, sóknarmaður Real Madrid, hefði frekar átt að vinna til verðlaunanna.
Rodri sleit krossbönd í hné í upphafi tímabilsins og hefur því ekkert leikið með City að undanförnu en hann snýr að öllum líkindum aftur á völlinn á næstu leiktíð.
„Ummæli Ronaldos komu mér á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn því hann af öllum veit hvernig þessi verðlaun virka eftir að hafa unnið til þeirra fimm sinnum,“ sagði Rodri.
„Það var ákvörðun fjölmiðlamanna að ég skildi vinna í ár, margir af þessum fjölmiðlamönnum hafa eflaust kosið Ronaldo líka á einhverjum tímapunkti í gegnum tíðina.
Ég hugsa að Ronaldo hafi ekki verið ósammála þeim í þau skipti sem hann vann,“ bætti Rodri við í samtali við spænska miðilinn AS.