Markvörðurinn hyggst kaupa gamalt stórveldi

Heiðar Helguson og Oliver Kahn í hörkurifrildi í leik Íslands …
Heiðar Helguson og Oliver Kahn í hörkurifrildi í leik Íslands og Þýskalands á Laugardalsvellinum árið 2003. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Oliver Kahn, einn þekktasti markvörðurinn í sögu þýskrar knattspyrnu, hefur hafið viðræður um kaup á franska knattspyrnufélaginu Bordeaux.

Kahn, sem m.a. varði mark Þjóðverja þegar þeir urðu Evrópumeistarar árið 1996, staðfesti við dagblaðið Bild að viðræður væru hafnar en væru á frumstigi ennþá.

Bordeaux hefur sex sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2009, og varð bikarmeistari í fjórða sinn árið 2013.

Á sínum tíma léku með liðinu stjörnur á borð við Zinedine Zidane og Alain Giresse, en Bordeaux var sent niður í frönsku D-deildina á síðasta ári eftir að það varð gjaldþrota og varð að hætta sem atvinnufélag.

Þar er Bordeaux nú í fjórða sæti í sínum riðli en hefur aðeins tapað einum af fyrstu 12 leikjum sínum á tímabilinu. Markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu er Andy Carroll, fyrrverandi sóknarmaður hjá m.a. Newcastle, West Ham og Liverpool, en hann hefur skorað sex mörk í fyrstu átta leikjum sínum fyrir Bordeaux.

Oliver Kahn er 55 ára gamall og varði mark Þýskalands í 86 landsleikjum frá 1995 til 2006. Hann lék í fjórtán ár í marki Bayern München, frá 1994 til 2008, og varð átta sinnum þýskur meistari með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert