Bætir við enn einu tímabilinu

Manuel Neuer hefur leikið 19 leiki í marki Bayern á …
Manuel Neuer hefur leikið 19 leiki í marki Bayern á yfirstandandi tímabili. AFP/Michaela Stache

Manuel Neuer, knattspyrnumarkvörðurinn reyndi og sigursæli, verður í það minnsta eitt tímabil enn í röðum Bayern München í Þýskalandi.

Staðfest hefur verið að samningur Neuers verði framlengdur um eitt ár til viðbótar, eða til sumarsins 2026.

Neuer er 38 ára gamall og leikur sitt fjórtánda tímabil með Bayern eftir að hafa komið til félagsins frá Schalke árið 2011.

Hann hefur ellefu sinnum orðið þýskur meistari með Bayern, fimm sinnum bikarmeistari og tvisvar unnið Meistaradeild Evrópu með félaginu.

Neuer varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2014 og margoft verið útnefndur besti markvörður heims og Evrópu. Hann lék 124 landsleiki fyrir Þýskaland en  tilkynnti í ágúst 2024 að hann hefði dregið sig í hlé frá landsliðinu.

Neuer hefur samtals spilað 538 leiki með Bayern og Schalke í efstu deild Þýskalands og 769 mótsleiki með félögunum á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert