Frá Tel Aviv til Búdapest

Robbie Keane er kominn til Ungverjalands.
Robbie Keane er kominn til Ungverjalands. AFP/Kevork Djansezian

Robbie Keane, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íra í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari ungverska stórveldisins Ferencváros.

Hann kemur þangað frá Maccabi Tel Aviv í Ísrael, sem hann stýrði m.a. gegn Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar árið 2023. Maccabi varð ísraelskur meistari undir hans stjórn á síðasta tímabili.

Í Búdapest kemur Keane í staðinn fyrir Hollendinginn Pascal Jansen sem kvaddi Ungverjana eftir aðeins hálfs árs dvöl um áramótin til að taka við New York City í bandarísku MLS-deildinni.

Keane er 44 ára gamall og lék á sínum tíma 146 landsleiki fyrir Írland þar sem hann skoraði 68 mörk. Hvort tveggja er ríkjandi met hjá Írum. Þá skoraði hann 251 deildamark í 578 leikjum þar sem hann lék lengst af á Englandi, m.a. með Tottenham, Liverpool, Leeds og West Ham.

Þá skoraði Keane 83 mörk í 125 leikjum með Los Angeles Galaxy í MLS-deildinni en þar lék hann í fimm ár á lokaspretti ferilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert