Íslendingur bætist við hjá Norrköping

Pálmar Hreinsson er kominn í starfslið Norrköping.
Pálmar Hreinsson er kominn í starfslið Norrköping. Ljósmynd/IFK Norrköping

Einn Íslendingur í viðbót hefur bæst við í starfslið sænska knattspyrnufélagsins Norrköping.

Pálmar Hreinsson hefur verið ráðinn þrekþjálfari karlaliðs félagsins en hann kemur frá AIK í Stokkhólmi þar sem hann var í sama starfi og var áður hjá Djurgården.

Pálmar er fimmtugur Hornfirðingur sem lék með Sindra, Val, Aftureldingu og HK en sneri sér síðan að þrekþjálfun.

Hann og Magni Fannberg, yfirmaður knattspyrnumála hjá Norrköping, störfuðu saman bæði hjá HK og AIK.

„Pálmar er með mikla reynslu eftir að hafa starfað í sænsku úrvalsdeildinni um árabil. Hann er leiðtogi sem hefur unnið í mjög faglegu umhverfi og eftir þeim gildum sem við viljum hafa,“ segir Magni á heimasíðu Norrköping.

Með Norrköping leika þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson og þá hefur Ari Freyr Skúlason unnið við þjálfun hjá félaginu eftir að hann lagði skóna á hilluna í árslok 2023. Sigdís Eva Bárðardóttir leikur síðan með kvennaliði félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert