Árbæingurinn frá Ítalíu til Grikklands

Hjörtur Hermannsson er orðinn leikmaður Volos.
Hjörtur Hermannsson er orðinn leikmaður Volos. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Hermannsson hefur gert samning við gríska félagið Volos. Hjörtur kemur til Volos frá Carrarese á Ítalíu.

Hjörtur var aðeins í hálft ár hjá Carrarese og spilaði síðast með liðinu í september. Hann samdi við félagið í sumar eftir veru hjá Pisa. Bæði Carrarese og Pisa leika í B-deild Ítalíu.

Volos er í tólfta sæti af fjórtán liðum í efstu deild Grikklands með 17 stig eftir 17 leiki.

Hjörtur, sem er 29 ára gamall miðvörður og uppalinn hjá Fylki, hefur einnig leikið með Bröndby í Danmörku og Gautaborg í Svíþjóð. Þá lék hann ungur að árum með varaliði PSV í Hollandi.

Í 29 A-landsleikjum hefur Hjörtur skorað eitt mark og á ferlinum hefur hann spilað 277 deildaleiki á Íslandi, í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku og á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert