Knattspyrnuþjálfarinn Bruce Mwape starfar áfram fyrir knattspyrnusamband Sambíu, þrátt fyrir að tveir leikmenn kvennalandsliðs þjóðarinnar hafi sakað hann um kynferðisofbeldi.
Mwape var þjálfari kvennalandsliðs Sambíu á HM 2023 og sökuðu tveir leikmenn hann um að snerta á þeim brjóstin viljandi eftir æfingu.
Hann neitaði sök en FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, er með málið til rannsóknar. Þrátt fyrir ásakanirnar stýrði Mwape Sambíu á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar.
Mwape hefur nú látið af störfum sem landsliðsþjálfari kvenna eftir mikla ólgu innan sambandsins. Hann starfar þó áfram hjá knattspyrnusambandinu, nú sem ráðgjafi og yfirþjálfari yngri landsliða.
Nora Hauptle, fyrrverandi landsliðskona Sviss, hefur tekið við þjálfun kvennalandsliðsins en hún var áður landsliðsþjálfari Gana.