Á leið frá Noregi til Madrídar

Ásdís Karen Halldórsdóttir í leik með Lilleström.
Ásdís Karen Halldórsdóttir í leik með Lilleström. Ljósmynd/Lilleström

Knattspyrnukonan Ásdís Karen Halldórsdóttir er að öllum líkindum á leið frá Lilleström í Noregi  til sænska félagsins Madrid CFF.

Ásdís sagði við mbl.is að útlit væri fyrir að af samningum yrði. Lilleström hefði samþykkt til boð frá Madríd en hún ætti eftir að fara til Spánar og skrifa undir þannig að skiptin væru ekki staðfest enn sem komið er.

Ásdís, sem er 25 ára gömul, fór frá Val til Lilleström fyrir ári síðan og lék 21 af 27 leikjum liðsins í norsku úrvalsdeildinni árið 2024, þar sem hún skoraði fjögur mörk en liðið endaði í fjórða sæti.

Hún hefur af og til verið í landsliðshópi Íslands síðustu árin og lék sinn annan landsleik gegn Bandaríkjunum í október.

Madrid CFF er í tíunda sæti af sextán liðum í 1. deildinni á Spáni, efstu deildinni þar í landi, þegar 13 umferðir hafa verið leiknar af 30 á yfirstandandi tímabili.

Landsliðskonan Hildur Antonsdóttir leikur með Madrídarliðinu en hún kom þangað í sumar frá Fortuna Sittard í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert