Freyr Alexandersson heldur til Noregs í dag þar sem hann mun hefja viðræður við norska knattspyrnufélagið Brann um að taka við sem þjálfari karlaliðsins.
Norski miðillinn Nettavisen skýrir frá því að Brann hafi ekki tekist að semja við hinn danska Mike Tullberg um að taka við liðinu og að því snúi félagið sér nú að Frey.
Brann hefur undanfarin tvö tímabil hafnað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Félagið er í þjálfaraleit þar sem Eirik Horneland lét nýverið af störfum til þess að taka við Saint-Étienne í frönsku 1. deildinni.
Freyr var rekinn úr starfi þjálfara belgíska A-deildar liðsins Kortrijk skömmu fyrir áramót og hefur síðan þá verið orðaður við hin ýmsu störf, þar á meðal karlalið Bröndby í Danmörku og A-landslið karla.
Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo, sem einnig hafði verið orðaður við íslenska landsliðið, er að taka við Molde í heimalandinu og virðist því hringurinn vera að þrengjast mikið í þjálfaraleit KSÍ.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlalið Víkings úr Reykjavík, er einnig á blaði hjá KSÍ.