Real Madríd tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik meistarabikars Spánar í fótbolta er liðið vann Mallorca, 3:0. Fer keppnin fram í Sádi-Arabíu.
Barcelona vann 2:0-sigur á Athletic Bilbao í gær og mætast erkifjendurnir því í úrslitaleik á sunnudag.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Jude Bellingham Real yfir á 63. mínútu. Var staðan 1:0 fram að uppbótartíma og þá bættu Real-menn við tveimur mörkum.
Það fyrra var sjálfsmark á annarri mínútu uppbótartímans og það seinna gerði Rodrygo á fimmtu mínútu uppbótartímans.