Harry Kane, enskur landsliðsmaður og framherji Bayern München, hefur skorað úr 26 vítum í röð.
Kane skoraði sigurmark Bayern í gær úr vítaspyrnu gegn Borussia Mönchengladbach en síðasta vítaklúðrið hans kom gegn Frakklandi á HM árið 2022.
Þýski markvörðurinn og fyrirliði Bayern, Manuel Neuer, fór fögrum orðum um Kane eftir leik.
„Við þurfum Harry, við vitum það. Hann er ekki aðeins frábær framherji á vítapunktinum heldur líka í teignum,“ sagði Neuer.
Kane hefur skorað 21 mark í jafnmörgum leikjum fyrir Bayern á þessari leiktíð.
„Hann býr til svæði fyrir aðra leikmenn og færin sem við sköpum eru oftar en ekki honum að þakka,“ sagði Neuer. „Hann er mikilvægt vopn í okkar vopnabúri,“ sagði Þjóðverjinn að lokum.