Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var á skotskónum í dag þegar lið hennar, Bayer Leverkusen, vann spænska liðið Villarreal í æfingaleik á Spáni.
Leverkusen vann mjög öruggan sigur í leiknum, 5:1, og Karólína skoraði þriðja mark liðsins á 57. mínútu.
Keppni í Þýskalandi hefst á ný eftir vetrarfríið þann 31. janúar þegar Leverkusen sækir Eintracht Frankfurt heim í sannkölluðum toppslag. Keppni fjögurra efstu liðanna er gríðarlega jöfn en Eintracht er með 29 stig, Bayern München 29, Wolfsburg 28 og Leverkusen 26 stig en Leverkusen á leik til góða á hin liðin.
Mótherjar dagsins, Villarreal, eru í níunda sæti spænsku B-deildarinnar.