Raffaele Palladino, knattspyrnustjóri Fiorentina í ítölsku A-deildinni, tók upp hanskann fyrir Albert Guðmundsson á blaðamannafundi eftir tap liðsins gegn Monza á útivelli í gær.
Leiknum lauk með sigri Monza, 2:1, en Albert var í byrjunarliði Fiorentina og spilaði fyrri hálfleikinn áður en hann var tekinn af velli í hálfleik.
Þetta var fjórði ósigur Fiorentina í síðustu fimm leikjum sínum og var Palladino spurður út í frammistöðu Alberts á blaðamannafundinum í leikslok og af hverju hann tók hann af velli í hálfleik.
„Guðmundsson? Þetta snýst ekki um einstaklingana og þeir eru ekki vandamálið. Þetta snýst um liðið og eins og staðan er í dag erum við ekki lið,“ sagði Palladino.
„Við þurfum að leggja meira á okkur, þar með talinn ég og ég þarf að finna lausnir. Við vorum ekki að missa okkur þegar okkur gekk vel og það sama er upp á teningnum núna,“ sagði Palladino.
Fiorentina er með 32 stig í 6. sæti A-deildarinnar, 15 stigum minna en topplið Napoli.