Liðsfélagi Dagnýjar glímdi við átröskun

Katrina Gorry í leik með ástralska landsliðinu gegn því danska …
Katrina Gorry í leik með ástralska landsliðinu gegn því danska á HM 2023. AFP/Franck Fife

Ástralska knattspyrnukonan Katrina Gorry, fyrirliði West Ham United, hefur greint frá því að hún hafi um fjögurra ára skeið glímt við átröskun.

„Þetta laumaði sér inn í líf mitt. Á þessum tíma bjó ég í Japan og það var margt fjölskyldutengt í gangi utan vallar. Mér leið eins og það eina sem ég gæti stjórnað í lífi mínu væri matur.

Ég hef alltaf verið frekar sterkur íþróttamaður og hugsaði í rauninni ekkert út í þyngd mína en svo læddust mismunandi hlutir upp að mér, hvort sem það var að vigta mig fyrir æfingar eða áður en við fengum okkur morgunmat.

Ég fann að ég reyndi að hafa stjórn á mat og það fór bara úr böndunum,“ sagði Gorry í samtali við breska ríkisútvarpið.

Hún kvaðst vonast til þess að geta nýtt þessa erfiðu reynslu til góðs með það fyrir augum að ræða líkamsímynd knattspyrnukvenna á jákvæðari nótum.

Dagný Brynjarsdóttir er leikmaður West Ham og var með fyrirliðabandið áður en Gorry tók við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert