Markið dugði ekki til stigs

Brynjólfur Willumsson leikur með Groningen.
Brynjólfur Willumsson leikur með Groningen. Ljósmynd/KSÍ

Brynjólfur Willumsson skoraði mark Groningen í kvöld þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Go Ahead Eagles á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Brynjólfur jafnaði metin á 31. mínútu en þetta var hans þriðja mark fyrir liðið á tímabilinu. Hann var keyptur til félagsins í sumar frá Kristiansund í Noregi. Allt stefndi í að markið myndi færa Groningen stig en heimamenn í Go Ahead skoruðu sigurmark í uppbótartímanum.

Groningen er í 14. sæti af 18 liðum með 17 stig, fjórum stigum fyrir ofan umspilssæti.

Rúnar Þór Sigurgeirsson lék allan tímann með Willem II sem gerði jafntefli, 1:1, við stórlið Feyenoord. Willem II er í 10. sæti deildarinnar með 23 stig.

Kolbeinn Birgir Finnsson var allan tímann á varamannabekk Utrecht sem gerði markalaust jafntefli á heimavelli við AZ Alkmaar. Utrecht hefur komið mjög á óvart og er í þriðja sæti með 40 stig, á eftir stórveldunum PSV Eindhoven og Ajax sem eru með 46 og 42 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka