Elísabet Gunnarsdóttir hefur verið ráðin þjálfari belgíska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Skrifaði hún undir samning sem gildir til sumarsins 2027.
Elísabet hefur verið án þjálfarastarfs síðan hún lét af störfum hjá Kristianstad þar sem hún þjálfaði kvennaliðið um 15 ára skeið á árunum 2009 til 2023.
„Ég hlakka til að þjálfa Rauðu logana, sérstaklega með Evrópumótið í augsýn. Belgía hefur bætt sig mikið í kvennafótboltanum undanfarin ár og hefur byggt upp sterkt landslið með bæði reyndum og ungum leikmönnum.
Ég er full tilhlökkunar að halda áfram þessari vinnu í samvinnu við belgíska knattspyrnusambandið, starfsfólkið og leikmennina. Saman getum við náð frábærum úrslitum,“ sagði Elísabet í tilkynningu frá belgíska sambandinu.
Elísabet er þar með á leið á Evrópumótið í Sviss í sumar en þar leikur Belgía rétt eins og Ísland. Liðin voru í sama styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla en Belgía leikur í B-riðli keppninnar ásamt Spáni, Portúgal og Ítalíu á meðan Ísland er í A-riðli með Sviss, Noregi og Finnlandi.
Belgíska liðið, undir stjórn Elísabetar, mætir Ítalíu í fyrsta leik í Sion 3. júlí, síðan spænsku heimsmeisturunum í Thun 7. júlí og svo Portúgal í Sion 11. júlí.
Ísland og Belgía gætu mæst í átta liða úrslitunum, komist bæði liðin áfram úr riðlakeppninni.
Lið Belgíu er í 19. sæti á heimslista FIFA, fimm sætum á eftir liði Íslands sem er í 14. sæti.