Landsliðsmarkvörðurinn til Skotlands

Telma Ívarsdóttir eftir leik með íslenska landsliðinu.
Telma Ívarsdóttir eftir leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Telma Ívarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er gengin til liðs við skoska stórliðið Rangers sem leikur í úrvalsdeildinni þar í landi. Skrifaði hún undir tveggja og hálfs árs samning.

Telma, sem er 25 ára gömul, kemur frá Breiðabliki þar sem hún varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili.

Reynir hún nú fyrir sér í atvinnumennsku í fyrsta sinn en Telma á að baki 85 leiki í efstu deild á Íslandi með Breiðabliki, FH og Grindavík.

Ferilinn hóf hún ung að árum með Fjarðabyggð og lék auk þess með Haukum og Augnabliki í 1. deild, alls 55 leiki og skoraði Telma eitt mark fyrir Fjarðabyggð árið 2014, þá aðeins 15 ára gömul og lék hún þá í stöðu framherja.

Telma á 12 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.

Rangers er í öðru sæti skosku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir Glasgow City, þegar leiknar hafa verið 18 umferðir af 32. Rangers missti á síðasta tímabili af skoska meistaratitlinum til Celtic á markatölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert