Myndi deyja fyrir Liverpool

Ibrahima Konaté situr fyrir svörum á fréttamannafundi í gær.
Ibrahima Konaté situr fyrir svörum á fréttamannafundi í gær. AFP/Paul Ellis

Franski knattspyrnumaðurinn Ibrahima Konaté, miðvörður Liverpool, kveðst hafa snúið aftur á völlinn eftir meiðsli fyrr en ráðlegt væri til þess að hjálpa liðinu.

„Ég reyndi að snúa aftur 100 prósent en ég er það ekki því ég flýtti endurkomunni eftir hnémeiðsli mín. Ég gerði þetta fyrir liðið mitt. Ég get dáið fyrir þetta lið, það er í lagi. Hnéð mitt mun jafna sig 100 prósent bráðlega,“ sagði Konaté á fréttamannafundi í gær.

Liverpool fær Hákon Arnar Haraldsson og félaga í Lille í heimsókn á Anfield í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

„Ég var mjög nálægt því að snúa aftur hvort sem er. Planið hjá mér var að æfa þá viku en þegar ég sá að Joe [Gomez] meiddist hugsaði ég: „Gott og vel, ég verð að koma fyrr til baka.“

Ég fann svo sannarlega aðeins til í hnénu í fyrsta leik mínum til baka en það batnaði dag frá degi. Sjúkraþjálfararnir og læknateymið hafa staðið sig frábærlega fyrir mig,“ bætti miðvörðurinn stæðilegi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert